Publications

Afgönsk matarveisla í hjarta Reykjavíkur

afghanfood
Afgönsk matarveisla í hjarta Reykjavíkur

SAMTÍMINNHALLA HARÐARDÓTTIR

Matarkvöld Samtaka kvenna af erlendum uppruna er leynd perla í matarhafsjó bæjarins. Fréttatíminn kíkti í afganska matarveislu þar sem rétturinn manto var stjarna hlaðborðsins, enda réttur sem er gerður til að skapa minningar.


K
völdin byrjuðu smátt þar sem nokkrar konur í samtökunum hittust og útbjuggu einn rétt frá einhverju heimalandinu. Skipst var á sögum milli þess sem maturinn varð til í höndum kvennanna og svo var setið fram eftir og kjaftað. Hugmyndin að kvöldunum var, og er enn, að þar gætu erlendar konur hitt íslenskar konur, skipst á sögum og uppskriftum, styrkt hver aðra, búið til tengslanet og æft sig í íslensku. Eftir því sem konunum fjölgaði varð flóknara að elda saman og þegar maturinn var farinn að verða tilbúinn rétt fyrir miðnætti ákváðu skipuleggjendur að framvegis yrði nýtt fyrirkomulag. Nú hittist hópurinn tvisvar í mánuði og borðar af hlaðborði þar sem allar hafa lagt sitt af mörkum eða þá í þemaveislu þar sem nokkrar konur sjá um að elda og kynna mat frá einu landi og svo er greitt í sjóð sem rennur til kokka kvöldsins. Allar konur sem hafa áhuga á að kynnast nýrri matarmenningu eru hjartanlega velkomnar en það er um að gera að bóka sig með fyrirvara því færri komast að en vilja.

afghanf

Í síðustu viku sá Zahra Mesbah um afganska matarveislu með aðstoð systur sinnar, mömmu og vinkonu þar sem þær reiddu fram fjölda rétta sem tók þær tvo daga að undirbúa. „Það er mikið um lamb í afgönskum mat og við eldum almennt mikið af lambi á Íslandi. Svo höfum við alltaf hrísgrjón með öllum mat og við hátíðleg tækifæri, eins og í kvöld, sjóðum við þau upp úr kraftinum af kjötinu og bætum kryddi og þurrkuðum ávöxtum út í. Þess vegna eru hrísgrjónin svona dökk. Við notum mikið af kóríander, hvítlauk og chili en samt gerum við ekki of sterkan mat. Mamma vill miklu sterkari mat en við systurnar og býr til sína eigin extra sterku chilisósu sem hún borðar með öllum mat,“ segir Zahra og hlær. Zahra er tuttugu og tveggja ára nemi í ensku og íslensku í Háskóla Íslands og hefur búið á Íslandi í þrjú ár. „Við vorum þrjár fjölskyldur sem komum hingað saman fyrir þremur árum, þrjár mæður með sjö börn samtals, og við vorum fyrstu afgönsku flóttamennirnir á Íslandi. Faðir minn, sem var stjórnmálamaður í Afganistan, var myrtur þegar ég var tveggja ára og þá flúðum við til Írans þar sem við bjuggum þar til við fengum hæli hér í gegnum Rauða krossinn.“

afghanfood1

Zahra segist ekki hafa haft neinar hugmyndir um Ísland áður en hún kom en hún hlær innilega að sinni fyrstu matarminningu. „Stuttu eftir við komum var okkur boðið upp á fiskisúpu í tungumálaskólanum. Fiskisúpu! Ég hafði aldrei heyrt neitt jafn furðulegt, við borðuðum ekki mikið af fiski í Íran því fiskur er svo dýr en þegar við fengum hann þá var hann eldaður í ofni, ég hafði aldrei heyrt um fisk í súpu. En mér fannst hún mjög góð, bara óvenjuleg, og í dag er ég mjög hrifin af fiskisúpu, sérstaklega með rækjum og rjóma.“

afghanfood2

Afgönsku konurnar sem hingað komu saman halda vel hópinn og segir Zahra mat skipta þær miklu máli, með honum haldi þær í hefðina og minningar um tíma sem hafi glatast. Þær hittist við öll hátíðleg tækifæri og þá sé alltaf eldað manto, rétturinn sem þær bera á borð í matarveislu kvöldsins. Manto er gufusoðnar bollur með kryddaðri lambakjötsfyllingu, líkar dömplings, sem tekur heilan dag að útbúa.

„Nafnið á réttinum þýðir „ég og þú“ og ég held að það sé vegna þess að þessi matur er alltaf eldaður í hópi. Fjölskylda mömmu minnar, sem var líka flóttafólk í Íran, kom alltaf saman um helgar og þá var þessi réttur eldaður og allir tóku þátt, bæði fullorðnir og ungir, karlmenn og konur. Þá settum við risastóran dúk á stórt borð og þar var deigið flatt út á meðan aðrir bjuggu til fyllinguna. Svo hjálpuðust allir að við að búa til bollurnar sem eru svo gufusoðnar í sérstökum pottum. Þetta tók allan daginn og var mjög skemmtileg stund, það voru sagðar margar sögur og mikið af bröndurum og mikið hlegið. Við sem komum hingað saman fyrir þremur árum erum mjög nánar og við eldum alltaf manto saman því við elskum það allar. Rétturinn minnir okkur á það gamla en hann býr líka til nýjar minningar.“

afghanfood3

Maryam Raisi, Zahra Mesbah, Hava Foroutan og Fereshte Mesbah sáu um afgönsku matarveisluna.

Uppskriftina að manto og öðrum dýrindis réttum frá Afganistan og Íran er hægt að nálgast á matarbloggi móður Zöhru:

You may also like