Ef ekki er talað um fordóma breytist aldrei neitt. Þetta segir formaður samtaka kvenna af erlendum uppruna. Hún segir að við þurfum að hætta að flokka fólk eftir til dæmis þjóðerni og fara að tala um einstaklinga.
Í kvöldfréttum í gær sagði Cynthia Trililani að asískar konur mæti miklum fordómum á Íslandi, séu kallaðar ljótum nöfnum og oft gengið út frá því að þær séu vændiskonur þegar þær fara út að skemmta sér.
Cynthia hélt ræðu um efnið á Austurvelli á laugardag eftir Druslugönguna. Anna Katarzyna Wozniczka, formaður samtaka kvenna af erlendum uppruna, segir mikilvægt að Cynthia og almennt séð konur af erlendum uppruna séu virkar í samfélaginu og láti í sér heyra.
„Ég held að augu margra og eyru opnuðust aðeins og fólk byrjaði kannski að pæla aðeins í þessum fordómum, það var held ég það sem vantaði. Annars gerist ekkert og breytist ekkert,“ segir Anna.
Hún segir að það séu fordómar á Íslandi, það hafi alltaf verið fordómar og verði líklega alltaf. „Við tengjum oft fordóma við fáfræði, þekkingarleysi eða hræðslu við það sem er ókunnugt,“ segir Anna.
Anna segir að Íslandi nálgist að vera fjölmenningarsamfélag, og ýmislegt gott hafi verið gert þó enn sé langt í land. Hún segir mikilvægt að fólk, stofnanir, mennta- og heilbrigðiskerfi taki höndum saman og vinni gegn fordómum, samfélaginu öllu til góða. Til dæmis með því að hætta að setja alla, af sama þjóðerni, undir sama hatt.
„Það er ekki hægt að flokka fólk þannig að það séu bara Asíubúar sem lenda í þessu eða frá Póllandi eða Litháen. Ég held að við þurfum að hætta að tala um flokk fólks og byrja að tala um einstaklinga,“ segir Anna.