Publications

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fá styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsens.

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fá styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsens.

Birt 08 feb. 2014

aniastyrk

Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar afhenti styrkinn úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Höfða. Hún sagði samtökin vel að styrknum komin, þau hefðu unnið ötult starf og staðið vörð um réttindi kvenna af erlendum uppruna. Með ýmis konar fræðslu og námskeiðum hefðu samtökin aukið sýnileika og styrk þessa samfélagshóps og sýnt fram á að verðmæti felast í fjölmenningu.

Ania Wozniczka, formaður samtakanna, tók við styrknum og sagði hann koma að góðum notum í starfinu fram undan enda mörg verkefni sem væru í deiglunni.

 

samtok

Minningarsjóður Gunnars Thoroddsens var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem á fæðingardegi Gunnars þann 29. desember 1985. Í stofnskrá sjóðsins segir meðal annars að styrkja skuli verkefni eða einstaklinga sem vinna á sviði mannúðar-, heilbrigðis- eða menningarmála.

Samtök kvenna af erlendum uppruna voru stofnuð á Kvennafrídeginum, þann 24. október 2003 og fögnuðu því nýlega 10 ára afmæli. Tilgangur samtakanna er að sameina konur sem sest hafa að á Íslandi, ljá þeim rödd, berjast fyrir hagsmunum þeirra og vinna að jafnri stöðu þeirra á öllum sviðum samfélagsins. Þá er enn fremur lögð áhersla á að tryggja að konur þekki réttindi sín og þau úrræði sem þeim býðst.

Samtökin vinna náið með öðrum félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum, hérlendis sem erlendis. Af samstarfsaðilum má nefna Kvenréttindafélag Íslands, Kvennaathvarfið, UN Women, Fjölmenningarsetur, Alþjóðahús, Rauða kross Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og ýmis ráðuneyti.

http://kvennabladid.is/2014/02/08/samtok-kvenna-af-erlendum-uppruna-a-islandi-fa-styrk-ur-minningarsjodi-gunnars-thoroddsens/

You may also like