Publications

Ræða haldin á stofnfundi Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, þann 24. október 2003

Fundarstjóri, Frú Vigdís Finnbogadóttir,

Kæru gestir.

Mig langar að segja ykkur í fáeinum orðum um upphaf hugmyndarinnar um stöfnun samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekki bara þörf fyrir slíkan málsvara erlendra kvenna heldur einnig mikill ahugi og velvilji í garð þess, bæði hjá erlendum konum búsettum hér á landi, yfirvöldum og ekki síst hjá Íslendingum sjálfum.

Á síðasta ári fóru þrjár konur fyrir tilstilli Jafnréttisstofu og Norrænu ráðherranefndarinnar til Oslo á fund með þarlendu félagi kvenna af erlendum uppruna. Tilgangurinn ferðarinnar var að afla upplýsinga um hvernig svona félag starfar og vinna síðan tillögur til félagsmálaráðherra um hvernig standa á að málefnum innfluttra kvenna. Í maí sl. fór síðan nokkur stór hópur okkar kvenna af  erlendum uppruna, ásamt íslenskum konum sem í sínum störfum sinna jafnréttismálum og málefnum útlendinga á ráðstefnu um jafnrétti kynjanna og aðlögunar innflytjenda, sem haldin var í Malmö í Svíþjóð. (Toshiki Toma, prestur innflytjenda var með okkur í för).

Fyrir mig persónulega var ráðstefnan sérstök upplifun. Það er mikil vitundarvakning um þessar mundir á Norðurlöndum um málefni útlendinga. Vissulega var talað mikið um vandamál sem fylgja fólksflutningum og árekstrum ólíkra menningarheima en einnig var talað um þann auð sem útlendingar koma með í farteskinu og á hvaða hátt er hægt að láta alla í samfélaginu njóta góðs af því. Mér var sérstök ánægja að vera í návist kvenna frá öllum heimshlutum sem skildu reynslu hver annarar fullkomlega. T.d. sagði finnsk kona við mig að sér þótti yndislegt að heyra nígeriska og kurdíska konu tala og hlæja saman á móðurmáli hennar, finnsku.

Í Malmö kynntumst við starfi margra félaga erlendra kvenna á Norðurlöndum. Þau hafa gert mikið í að styðja innfluttar konur og hjálpa þeim að fóta sig í nýju landi. Eftir heimkomuna vorum við öll sammála um að það væri þörf til að vinna áfram saman á einhvern hátt að þessum málefnum. Okkur fannst góð hugmynd að fylgja í fótspor systra okkar á Norðurlöndum og stofna félag erlendra kvenna á Íslandi. Þótt að aðstæður á Íslandi séu að mörgu leyti ólíkar þeim á öðrum Norðurlöndum, þá fannst okkur að Íslendingar geta lært margt af reynslu þeirra og e.t.v. komist hjá vandamálum sem þau eru núna að kljást við.

Það er mjög athyglisvert, að stofnanir sem vinna að málefnum útlendinga hafa oft takmörkuð tengsl við innflytjendur. Innfæddir Íslendingar geta ekki alltaf vitað hvað við hugsum og hvernig okkur líður ef við segjum þeim það ekki. Samskipti verða að eiga sér stað og mikilvægt er að þau séu á jákvæddum nótum og með opnum huga. Þetta gildir að sjálfsögðu á báða bóga. Í frjálsu og opnu samfélagi eiga allir borgarar að geta notið sín til fulls, óháð uppruna sínum. Það er alveg sjálfsagt og nauðsynlegt fyrir innflytjendur að aðlagast íslensku samfélagi til að geta notið góðs af því. Það er líka sjálfsagt að Íslendingar taki á móti innflytjendum með opnum huga til að geta notið góðs af þeirra þekkingu, menningu og lífsreynslu. Það er allra hagur.

Ég vakna ekki á hverjum degi hugsandi um að ég sé útlensk kona búsett á Íslandi. Ég er ekki hömluð af því að vera það sem ég er. Ég hef vissulega þurft að leggja meira á mig sem innflytjandi á Íslandi en hefði ég haldið áfram að búa í heimalandi mínu. Þetta gildir um alla sem flytja búferlum frá einu landi til annars. Ég hugsa samt oft um það að sú ákvörðun að hafa flutt til og aðlagast Íslandi hefur gefið mér aðra sýn inn í minn eigin menningarheim og gert mig reynslunni ríkari. Ég vil þakka Íslendingum fyrir að hafa tekið á móti mér með opnum örmum og bið að þeir geri það sama við alla útlendinga, óháð litarhætti, trúarbrögðum og menningaarfi.

Við konur af erlendum uppruna sem eigum heima á Íslandi viljum taka virkan þátt í motun síbreytilegs og nútimalegs samfélags hér á landi. Með stofnun þessa félags ætlum við að styðja og hvetja hver aðra til að eiga ánægjulegt líf í þessu landi.

Ég þakka ykkur fyrir.

Tatjana Latinovic

Ræða haldin á stofnfundi Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, þann 24. október 2003

You may also like

Discover more from W.O.M.E.N. in Iceland

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading