Publications

Vilja gera framlag kvenna af erlendum uppruna til íslenskrar menningar sýnilegt

Tíminn | 21.03.2013 |  ragnhildur@timinn.is

Vilja gera framlag kvenna af erlendum uppruna til íslenskrar menningar sýnilegt

Verkefnið Heimsins konur á Íslandi miðar að því að gera framlag kvenna af erlendum uppruna til íslenskrar menningar og samfélags sýnilegt. Gefin verður út viðtalsbók um þátttöku kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og samhliða útgáfu hennar verður sett upp ljósmyndasýning og vefur. Þetta kemur fram í frétt frá Borgarbókasafni Reykjavíkur.

Að verkefninu standa fjórar konur af íslenskum og erlendum uppruna í samvinnu við Söguhring kvenna, sem er samstarfsverkefni Borgarbókasafns Reykjavíkur og Samtaka kvenna af erlendum uppruna. Konurnar fjórar eru Ania Wozniczka, Kristín R. Vilhjálmsdóttir, Kristín Viðarsdóttir og Letetia B. Jónsson.

Í tilkynningu segir að „framlag þeirra fjölmörgu kvenna sem hafa af ýmsum ástæðum kosið að gera Ísland að heimili sínu er ómetanlegt. Búseta kvenna af erlendum uppruna á Íslandi auðgar íslenska menningu og samfélag. Með því að gera framlag þeirra sýnilegt og fagna því viljum við styrkja fjölmenningu á Íslandi og sjálfsmynd kvenna af erlendum uppruna.“

Áhugasamir geta lagt sitt af mörkum við gerð bókarinnar með því að tilnefna konur af erlendum uppruna til verkefnisins.

Verkefnið hefur hlotið styrki frá Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar, Hlaðvarpanum og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

You may also like