Publications

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi hlutu styrk

MÁLEFNI INNFLYTJENDA

FORVARNARSJÓÐUR REYKJAVÍKUR

 SAMTÖK KVENNA AF ERLENDUM UPPRUNA Á ÍSLANDI (W.O.M.E.N. IN ICELAND) – KYNNINGARBÆKLINGUR 

Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi (W.O.M.E.N. in Iceland) hlutu styrk til hönnunar og útgáfu kynningarbæklings samtakanna. Samtökin voru stofnuð til þess að skapa samstöðu- og samráðsvettvang meðal kvenna af erlendum uppruna sem margar hverjar eru félagslega einangraðar og í litlum tengslum við íslenskt samfélag. Samtökin styðja einnig við og stuðla að fjölbreyttu menningarstarfi og bættri ímynd kvenna af erlendum uppruna.

Aðdragandi og undirbúningur verkefnisins

Samtök kvenna af erlendum uppruna voru stofnuð árið 2003 og var markmiðið að ljá konum rödd og að styrkja sjálfsmynd og ímynd þeirra sem á þessum tíma var mjög veik í íslensku samfélagi. Verkefni samtakanna hafa verið mjög fjölbreytt, þau hafa fengið styrki til að halda sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir ungar konur og fylgt því eftir með heimildarmyndbandi, staðið fyrir bingókvöldum, söguhringjum í samstarfi við bókasöfnin, ráðstefnum og kynningum. Þá hafa liðskonur samtakanna skrifað greinar í dagblöð og setið í nefndum og ráðum.

Þrátt fyrir viðamikil og metnaðarfull verkefni hafa samtökin hvorki starfsmann né skrifstofu og öll starfsemin byggist á sjálfboðavinnu félaganna og styrkjum úr ýmsum áttum. Fara fundir samtakanna fram í heimahúsum, á kaffihúsum og hjá Kvenréttindafélaginu á Hallveigarstöðum. Frá upphafi hefur helsta áskorun samtakanna verið að ná til nýrra kvenna en konur af erlendum uppruna eru gríðarlega fjölbreyttur hópur. Margar erlendar konur vinna störf sem krefjast mjög lítilla samskipta við Íslendinga, verja frítíma sínum með samlöndum sínum eða á annan hátt utan íslensks samfélags. Aðrar hafa aðlagast íslensku samfélagi svo vel að þrátt fyrir að þær eigi mikið sameiginlegt með öðrum konum af erlendum uppruna, getur reynst erfitt að ná til þessara kvenna og vekja áhuga þeirra á þátttöku í samtökunum og íslenska samfélaginu.

Á póstlista samtakanna eru nú rúmlega 200 konur, þátttökugjöld eru engin og er reynt að halda samtökunum eins aðgengilegum og hægt er fyrir nýja félaga. Til að fá fleiri konur til þátttöku hefur reynst best að blanda saman hefðbundnum og óhefðbundnum kynningarleiðum. Hefur það gefið góða raun að ná til kvenna gegnum tengslanet og sú leið var til að mynda farin þegar samtökin fengu styrk til að kynna krabbameinsskoðun. Í stað þess að gera bæklinga og halda fyrirlestra var krabbameinsskoðunin kynnt gegnum fulltrúa ólíkra menningarhópa sem fengu greitt fyrir að ná ákveðnum fjölda erlendra kvenna í heimakynningar um krabbamein og krabbameinsskoðanir. Þannig gátu fulltrúarnir aðlagað kynningarnar þörfum sinna menningarhópa og dregið fram þau atriði sem voru mikilvægust þeim hópi. Aðstandendur verkefnisins töldu þó að bæklingur væri einnig góð leið til að ná til kvenna og var styrkur Forvarna- og framfarasjóðsins veittur til að þær gætu búið til slíkan bækling fyrir samtökin.

Framkvæmd verkefnisins og ávinningur af því

Gerð bæklingsins tók um sjö mánuði en hafist var handa við gerð hans í nóvember 2008 og var hann kynntur við formleg hátíðahöld Kvenréttindadagsins 19. júní 2009. Upphaflega stóð til að gera bæklinginn aðeins á fjórum tungumálum en við frekari þróunarvinnu var ákveðið að fjölga þeim í átta. Tungumálin eru íslenska, enska, pólska, arabíska, víetnamska, tælenska, rússneska og spænska. Fór öll vinna við skrif og þýðingar bæklingsins fram í sjálfboðavinnu eftir hefðbundinn vinnudag meðlimanna.

Við vinnslu bæklingsins var ákveðið að forsíðuna skyldu prýða meðlimir samtakanna sem endurspegluðu fjölbreytileika og breidd hópsins. Eru konurnar þrjár sem sjá má á forsíðunni hér að ofan upprunnar frá Afríku, Asíu og Evrópu. Þær komu til landsins 1995, 2002 og 2006 og var ein þeirra hámenntuð við komuna til Íslands en hinar með lágmarksmenntun. Ein varð fyrir heimilisofbeldi og hefur barist fyrir réttindum kvenna í þeirri stöðu, önnur varð fyrsta konan af erlendu bergi brotin til að útskrifast úr Kennaraháskólanum sem grunnskólakennari og þriðja kom hingað hámenntuð, stofnaði fyrirtæki og er farin aftur af landi brott þar sem henni buðust betri tækifæri.

Bæklingnum hefur verið dreift til til heilsugæslustöðva, þjónustumiðstöðva borgarinnar og til Þjóðskrár og Útlendingastofnunar. Bæklingurinn var kynntur fyrir starfsfólki þeirra vinnustaða sem höfðu áhuga á því og einnig var hann kynntur á nokkrum vinnustöðum þar sem mjög hátt hlutfall erlendra kvenna starfar.

http://eldri.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-4379/7414_read-24897/6734_view-4053/

You may also like