Publications

Erlendar konur eiga líka rétt á (kvenna)frí

Erlendar konur eiga líka rétt á (kvenna)frí

Grein birt í Morgunblaðinu október 2005

Íslenskar konur skrifuðu sig á spjald heimssögurnar fyrir þrjátíu árum með því að rísa upp fyrir rétti sínum. Íslenskar konur eru fyrir flestar kynsystur sínar út í heimi fyrirmynd og þess vegna ættu þær sem flytjast hingað að sjá landið í hyllingum. Hér hljóta hlutirnir að vera í lagi, félagsvitund er svo sterk, verkalýðsfélögin standa vörð um réttindi sinna félaga.

Það er hins vegar annar veruleiki sem erlendar konur þurfa að takast á við þegar þær feta sín fyrstu fótspor á íslenskum vinnumarkaði. Fyrstu árin eru þær oft bundnar við einn vinnuveitanda, af því að atvinnu- og dvalarleyfi þeirra er bundið honum sökum atvinnulöggjafar. Það er algjörlega á valdi vinnuveitandans að ákveða hvort hann vill koma fram við þær á sómasamlegan hátt, borga þeim sanngjörn laun og upplýsa þær um réttindi þeirra og skyldur. Ég stend í þeirri von að flestir vinnuveitendur eru þannig. En ég veit líka að það eru til vinnuveitendur sem notfæra sér vanþekkingu erlendra kvenna á þeirra rétti og greiða þeim ekki nema brot af þeim launum sem íslenskar konur mundu sætta sig við (svo að ekki sé minnst á íslenska karlmenn). Þær borga háar upphæðir fyrir leiguhúsnæði sem vinnuveitendur útvega þeim og vita ekki að þær eiga rétt á veikinda- og frídögum, e.t.v. vegna þess að þær koma frá löndum þar sem þannig réttindi eru ekki sjálfsögð. Flestar eru kannski ánægðar með launin sín af því að þær vita ekki betur. Þær borga samt samviskusamlega stéttafélagsgjöldin sín og eiga rétt á sömu þjónustu og upplýsingagjöf eins og aðrir launþegar.

Aðrar erlendar konur sem við heyrum ekki oft um eru menntaðar konur sem setjast hér að. Þrátt fyrir það að þær hafa sína menntun viðurkennda og leggja sig allar fram að læra fullkomna íslensku hættir þeim til að sæta sig við lægri stöðu og lægri launin en þær myndu gera væru þær ekki útlenskar. E.t.v. vegna þess að þeim finnst þær hafa ekki annarra kosta völ. Það getur tekið mjög langan tíma og mikla vinnu til að hrista af sér stimpil “útlensks vinnuafls” og vera metin að sínum verðleikum.

Ef konur af erlendum uppruna ganga út af vinnustöðum sínum 24. október til að mótmæla ójafnri stöðu sinni og annarra kvenna í þessu fyrirmyndasamfélagi okkar mun fiskvinnsla í öllu landinu stöðvast. Þessar konur eru stoð og stytta mikilvægustu atvinnugreinar landsins. Það munu fáir sjúklingar fá mat á spítölunum og gangarnir þar verða skítugir, af því að erlendar konur sjá um þessi verk. Það verður ekki skúrað í flestum fyrirtækjum landsins það kvöld. Tímar í tónlista- og dansskólum munu falla niður, þar sem erlendar konur eru að kenna. Þónokkur sæti í Sinfóníuhljómsveit Íslands verða auð. Svo mætti lengi telja af því að erlendar konur er að finna í öllum starfsstéttum og öllum menntunarstigum samfélagsins. Fyrir þrjátíu árum síðan tók kannski ein og ein erlend kona þátt í kröfugöngunni en í dag telja þær þúsundum sem hafa fulla ástæðu fyrir því að mótmæla. Og þær hafa rétt á sanngjörnum launum og vinnuskilyrðum, alveg eins og íslenskar konur og hver önnur manneskja, óháð kynni og uppruna.

Tatjana Latinovic

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1044017/?item_num=77&dags=2005-10-16

 

 

 

You may also like