Almennt

Í skotgröfum vinnumarkaðarins

Í skotgröfum vinnumarkaðarins

Kynbundið ofbeldi á vinnustað er veruleiki sem margar konur hafa þurft að glíma við, daglega. Þær verða fyrir alls kyns ofbeldi; munnlegu, líkamlegu og andlegu. Á meðan grafið er undan og brotið á þeim er enn búist við því að þær konur vinni vinnuna sína vel án þess að kvarta. Að þær þegi. Þögn, skömm, undanhald og einangrun kemur í kjölfar þessarar illu meðferðar. Rannsóknir sýna að ef þetta ofbeldi er viðvarandi á þolandi á hættu að fá áfallastreituröskun líkt og þau sem búa á stríðshrjáðum svæðum. Og þetta er það sem kynbundið ofbeldi er. Stríð. Ofbeldisfull árás á þá sem minna vald hafa. Fyrir innflytjendakonu sem á erfitt með að tjá sig á tungumáli landsins eða sem hefur ekki verið samþykkt af vinnufélögum sínum eða fullkomlega aðlagast vinnustaðnum, þá eru þessar aðstæður eins og jarðsprengjusvæði. Þessar aðstæður herja á hana á hverjum degi á meðan hún reynir að vinna vinnuna sína. Stöðug áreitnin grefur undan sjálfsöryggi hennar, reynir á langlundargeð hennar og eyðileggur traust hennar. Hún hefur áhrif á taugakerfi hennar og veldur ofsakvíða svipuðum þeim sem uppgjafahermenn þurfa að þola. Þessu stríði gegn konum verður að linna. Það hefur verið í gangi alltof lengi. Svo hvernig stöðvum við það? Mikilvægt er að rjúfa þögnina, eins og við höfum séð í #MeToo byltingunni. Þegar við afhjúpum ofbeldið styrkjum við þær sem eru í viðkvæmri stöðu og stöndum með þeim í baráttu þeirra. Samstaðan er önnur áhrifamikil leið til að berjast gegn þessu ofbeldi. Þetta er þegar samstarfsfólk tekur höndum saman og styður við þolendur ofbeldis.

Sagan sýnir að það er fjöldasamstaðan sem drífur áfram breytingar. Mjög oft hefur einhver á vinnustaðnum tekið eftir ofbeldinu og séð gerandann fremja ofbeldið en það er í eðli þessa stríðs að vitnin þegja þunnu hljóði. Það er þessi þögn sem fjöldasamstaðan verður að rjúfa. Samstarfsfólk getur afhjúpað ofbeldið á vinnustaðnum sem óásættanlegt og ólíðandi. Þegar við höfum borið kennsl á ofbeldið, þá er um engan annan valkost að ræða en að gera eitthvað í því. Það er þarna sem stéttarfélög koma við sögu. Fólk á vinnumarkaði þarf að hafa stuðning stéttarfélags síns til að aðstoða við næstu skref, við ákærur og önnur lagaleg atriði. Einnig hafa stéttarfélög vald til að þrýsta á stjórnvöld til að gera gerendur kynbundins ofbeldis á vinnumarkaði ábyrga fyrir gjörðum sínum. Þetta er vald sem við eigum að nota. Við gerum fólk ábyrgt með því að framfylgja þeim lögum og reglugerðum sem nú þegar eru til staðar um vinnumarkaðinn.

Það er alltof oft sem að framkvæmd þessara laga er ekki nægileg sem leiðir til þess að þolendur kynbundins ofbeldis hrökklast að lokum af vinnustöðum á meðan gerandinn heldur ofbeldinu óáreittur áfram. Mál er að linni! Ef samstarfsfólk, samtök launafólks og stjórnvöld skera upp herör gegn kynbundnu ofbeldi, þá getum við saman rofið þögnina, afhjúpað ofbeldið og gert gerendur ábyrga, svo að friður náist á vinnumarkaði á ný.

Shelagh Smith er í stjórn W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna.

Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.

 

You may also like