Almennt

Yfirlýsing vegna brottflutnings á þunguðum hælisleitanda

W.O.M.E.N, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fordæma vinnubrögð tveggja ríkisstofnana, Útlendingastofnunar og lögreglu, í máli þungaðrar albanskrar konu sem var vísað úr landi snemma í morgun ásamt fjölskyldu sinni; eiginmanni og tveggja ára syni.

Á Íslandi þar sem jafnrétti og mannréttindi eru höfð að leiðarljósi er það óásættanlegt að lesa frétt um að konu í neyð og fjölskyldu hennar sé sýnd svo ómannúðleg meðferð af hendi íslenskra yfirvalda. Útlendingastofnun hefur allt of oft sýnt ómannúðleg vinnubrögð við afgreiðslu hælisumsókna og landvistarleyfa. Stjórnvöld á Íslandi eru bundin af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og því viljum við skora á nýskipaðan dómsmálaráðherra að endurskoða vinnubrögð Útlendingastofnunar í málum sem þessum í takt við stjórnasáttmála ríkisstjórnarinnar. Í sáttmálanum kemur m.a. fram að; „Mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar verða lögð til grundvallar og áhersla á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd.“

Enn fremur tökum við undir öðrum þau sjónarmið að hér er um að ræða skýr brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir „skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.“

 

f.h. stjórnar W.O.M.E.N. Samtakanna kvenna af erlendum uppruna

You may also like

Discover more from W.O.M.E.N. á Íslandi

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading