Að leita að hlutverki mínu í samfélaginu; pælingar frá útlenskri íslenskri konu
Góðan dag ágætu áheyrendur. Til hamingju með daginn!
Hvað er samfélag og hvernig verð maður meðlimur í því? Þetta er of stór og flókin spurning til að svara í dag, en, eftir að ég var beðin að tala hér á þessari samkomu, fór ég að hugsa meira um þetta samfélag sem kallast Ísland og hvert hlutverk mitt er, eða á að vera hér.
Ég er komin að ákveðnum kaflaskilum í lífinu mínu. Ég er 40 ára gömul kona og ég fæddist ekki hér á Íslandi. Ég er samt búin að búa hér næstum því öll mín fullorðinsár en nú, þegar ég er að stiga ný skref í lífi og starfi, fer ég að hugsa um tímann og upplífun mína hingað til.
Eins og margir innflytjendur ætlaði ég bara að vinna hér tímabundið og safna peningum til að ferðast um allan heim. Ég komst reyndar ekki mikið lengra en til Grundarfjarðar, með smá hjáleið í gegnum Bretland og Noreg, og byrjaði ekki að tala íslensku fyrr en á 4. árið mitt á Íslandi, þegar það var ljóst að niðurgreiðsla á VISA kortinu mínu krefðist áframhaldandi viðveru minnar á landinu og þá er eins gott að aðlagast samfélaginu. Og íslenska er lykill að samfélaginu, er það ekki, eða svo er okkur sagt?
Nú er ég búin að vera hér í 17 ár og tala íslensku reiprennandi, jafnvel þó þetta sé ekki íslenska sem innfæddir íslendingar tala. En er ég þá komin í hópinn? Er ég orðin hluti af íslenska samfélaginu? Ég hef ekki enn fengið boð í saumaklúbb. Ég hef bara einu sinni verið boðin í brúðkaup hér á landi. Símasölufólk er ennþá að hrósa íslensku minni eins og ég sé nýfluttur krakki sem vantar klapp á bakið. Ókunnugt fólk í sundlaugum spyr ennþá hvaðan ég kem (ég svara Grundarfirði). Og núna, þegar ég er að íhuga breytingar á ferli mínum, finn ég fyrir miklu óöryggi gagnvart atvinnumöguleikum mínum í þessu samfélagi. Íslenskan mín er bara ekki nógu góð. Og samfélagið á Íslandi er ennþá ekki búið að aðlagast fjölda útfærslna af tungumálinu sem fylgir innflytjendum.
Svo þegar ég fer að hugsa um það, þá er svarið nei, mér finnst svo sannarlega að ég sé ekki komin í íslendingahóp. Ég verð aldrei, aldrei nokkurn tíma infæddur íslendingur, punktur. En, þá fer ég að hugsa um mín 17 ár á Íslandi, og hvað ég er búin að gera hér, eins og svo margar aðrar konur af erlendum uppruna, og vitið þið, hvað með það þó ég tali ekki eins og infæddur Íslendingur? Þrátt fyrir því að íslenskan mín hefur í gegnum tíðina verið bág, lág og jafnvel svoldið grá, er ég meðal annars búin að stofna og selja tvö lítil fyrirtæki, kenna ensku á næstum því öllum skólastigum, tekið þátt í sveitarstjórnarmálum, setið í bæjarstjórn Grundarfjarðar og jafnvel tekið þátt í pólitík á landsvísu. Inn á milli hef ég reynt að gera mitt til að fjölga Íslendingum og búa til skattgreiðendur fyrir framtíðina og fæddi þrjár skemmtilegar stelpur. Ég verð aldrei innfæddur íslendingur, en ég er samt virkur þátttakandi í íslensku samfélagi og hef verið það siðan eg byrjaði að búa hér.
Svo hvert er hlutverk mitt í íslenska samfélaginu? Það er það sem ég vil að það verði. Íslenskan er ekki lykill að samfélaginu. Íslenskan er lykill að samskiptum og upplýsingum. Lykill að samfélaginu er vilji minn til að taka þátt í og skapa það samfélag sem mig langar að sjá, sem mig langar að búa í. Stelpur, konur, við þurfum ekki að hljóma eins og Broddi Broddason til að vera hluti af samfélaginu, við erum það nú þegar. Heimtum áheyrn, hvort sem við tölum litla, mikla eða enga íslensku. Þetta er okkar samfélag líka.