Útgefið efni Ræður

Í leit að rödd og sjálfsmynd í nýju heimalandi

 Ræða Cynthiu Trililani talskonu samtaka kvenna af erlendum uppruna, flutt á Austurvelli 26. júlí 2014 í tilefni Druslugöngunnar.

Drusluganga er ekki aðeins samkoma þar sem fólk talar um nauðgunarmenningu og deilir sögum um ofbeldi og kynferðislega misnotkun gagnvart konum. Það nær lengra en aðeins til þess dags ársins þegar konur klæða sig í drusluföt, finnst þær vera valdamiklar og kalla sig druslur. Það fjallar einnig um meðvitund og vilja til að takast á og bregðast við félagslegum, efnahagslegum, og pólitískum vandamálum sem konur og aðrir standa frammi fyrir. Án þess að grípa til aðgerða og breyta, verður það aðeins hversdagslegur atburður. Þess vegna vil ég deila reynslu minni og skoðun sem asísk kona sem býr á Íslandi.

Staðalímyndir hinna erótísku Austurlanda þar sem konur séu undirgefnar og huglausar kynverur halda áfram að móta hugmyndir manna um asískar konur. Barátta litaðra kvenna til að lifa af andlega og líkamlega er stundum dýru verði keypt, sérstaklega þegar þær eru innflytjendur. Líf konu sem tilheyrir minnihlutahópi er í sjálfu sér sífelld mótspyrna. Það er meira en bara að lifa og anda, það er mótspyrna gegn staðalímyndum um asískar konur sem fátækar, ómenntaðar, þægar, kúgaðar – og einungis kynferðisleg leikföng.

Líf asískra kvenna á Íslandi tekur á sig margskonar form, allt frá því að skúra gólf, úrbeina og hreinsa fisk, til ýmissa faglegra starfa, frá bældri gremju og einmanaleika til þess að allt sé í himnalagi.

Það þarf hugrekki fyrir okkur asískar konur til að taka þá ákvörðun að koma til Íslands. Við horfumst í augu við missi við að hverfa úr okkar heimi og stíga inn í hið óþekkta með ókunnum kröfum og væntingum. Við höfum skilið við fjölskyldur okkar og vini. Við þurfum að aðlagast nýjum síðum, hefðum, viðhorfum og lífsstíl sem stundum hefur í för með sér höfnun og einangrun. Við týnum okkur í því ferli.

Við komum til Íslands af sömu ástæðum og Íslendingar sem flytja til annarra landa í Evrópu eða Ameríku, til að finna störf, til að stunda nám, eða til að fylgja eftir ástvinum eða fjölskyldum. Við umberum erfiðleika þess að vera útlendingar í öðru landi í því skyni að finna betra líf, án þeirra forréttinda að hafa félagslegan stuðning frá fjölskyldum og vinum okkar.

Ég er ekki fórnarlamb nauðgunar í líkamlegum skilningi, en í sumum tilfellum finnst mér ég vera nauðgað tilfinningalega og andlega, reisn mín afklædd, við að vera kölluð ýmsum niðrandi nöfnum og mismunað. Þegar ég kom til Íslands, var ég ung og bláeyg, full af draumum og metnaði, en í gegnum árin hafa mínir draumar farið veg allrar veraldar og metnaður minn visnað.

Þegar ég var að leita að vinnu, var mér ráðlagt að vinna sem nuddari án þess þó að vera spurð um nám og reynslu mína. Í sumum tilfellum þegar ég fór út að skemmta mér með vinkonum mínum frá Asíu, var okkur neitað um inngöngu á skemmtistaði með eftirfarandi ástæðu: „Við viljum að gott orð fari af staðnum“, sögðu dyraverðirnir. Við vorum kallaðar asískar píkur.

Ég hef fengið niðrandi athugasemdir frá karlmönnum sem hafa spurt mig hversu mikið það kostaði að eyða tíma með mér. Ég ber þess vegna sársauka í brjósti mér í þögn og finn fyrir niðurlægingu. Að finna leið til að rjúfa þögnina er ekki auðvelt og vegurinn þangað er langur.

Kynþáttafordómar gagnvart minnihlutahópum eru staðreynd, hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki. Þó vestrænar konur þjáist af kynþáttahyggju, þjást asískar konur bæði af kynjamisrétti og kynþáttafordómum.

Það að hár okkar er svart gerir okkur ekki ósýnilegar. Það að húð okkar er dekkri gerir okkur ekki að kynferðislega framandi verum. Það að við aðhyllumst önnur trúarbrögð gerir okkur ekki óvini. Það að eiginmenn okkar eru okkur eldri gerir okkur ekki að póstkröfubrúðum. Það að við tölum ekki góða íslensku þýðir ekki að við séum vanhæfar og ómenntaðar. Það að við forðumst átök þýðir ekki að við séum kúgaðar og undirgefnar. Það að við skemmtum okkur saman á skemmtistöðum þýðir ekki að við séum að selja okkur.

Í stað þess að líta á okkur sem útlendinga, lítið á okkur sem mágkonur ykkar, tengdadætur ykkar, vinkonur ykkar, starfsfélaga ykkar, konur sem sjá um börnin ykkar á leikskóla og frístundaseli, eða nágrannakonur ykkar í næsta húsi.

Við öndum sama lofti eins og aðrir Íslendingar gera, grátum þegar okkur líður illa eins og þið, hlæjum og brosum þegar okkur líður vel alveg eins og þið. Við erum kannski mismunandi útlits, gerum hluti á mismunandi hátt, við tölum mismunandi tungumál, en okkar blóð er rautt eins og ykkar.

Börnin okkar munu vaxa upp eins og Íslendingar, tala íslensku og heiðra íslenskar hefðir. Ísland er heimili okkar þar sem við búum, vinnum, stundum nám og þar sem við gætum líka endað okkar daga. Við leggjum til íslensks samfélags og þjóðar.

Í stað þess að líta á okkur sem útlendinga, lítið á okkur og takið okkur eins og aðra Íslendinga.

Ég stend hér í dag ekki aðeins sem asískur innflytjandi heldur sem Íslendingur. Saman munum við skapa betra samfélag fyrir okkur og komandi kynslóðir.

http://kvennabladid.is/2014/07/26/i-leit-ad-rodd-og-sjalfsmynd-i-nyju-heimalandi/

 

You may also like

Discover more from W.O.M.E.N. á Íslandi

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading