Útgefið efni Ræður

Ræða á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar; 20. nóvember 2004.

Hvaða áhrif hafa innflytjendur á íslenskt mál?

Erindi á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar 20. nóvember 2004. Aðalefni þess voru áhrif hnattvæðingar og upplýsingatækni á þjóðtungur. Tatjana er formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Auk Tatjönu fluttu þar erindi Guðrún Kvaran, Hafsteinn Bragason og Arnór Guðmundsson. Ritstj.

Góðan daginn,

Það er mér mikill heiður að geta ávarpað ykkur hér í dag og talað um eitt af  uppáhaldsmálefnum mínum  sem er íslenskt mál.  Ég heiti Tatjana Latinovic og er Serbi frá Króatíu. Ég ólst upp með tvö móðurmál, serbnesku sem töluð var á heimilinu og króatísku sem ég talaði utan heimilisins. Ég kláraði háskólanám í Króatíu með BA-gráðu í ensku og þýsku með kennararéttindum til að kenna þessi tvö tungumál. Og einmitt þegar ég hélt að ég ætti að láta duga að tala fjögur tungumál kynntist ég manninum mínum sem er Íslendingur og við ákváðum að flytja til Íslands. Þetta var fyrir 10 árum síðan.  Eins og gerist þegar maður er ungur og ástfanginn tók ég strax ástfóstri við land og þjóð.

Þriðja daginn eftir komuna skráði ég mig á íslenskunámskeið og hellti mér af fullum krafti í að læra tungumálið. Ég verð að viðurkenna að fyrstu mánuðina fannst mér stundum erfitt að réttlæta alla vinnuna í kringum það, aðallega vegna smæðar samfélagsins. Það var jafn tímafrekt að læra íslensku eins og t.d. að læra ensku sem töluð var víðar. Ég tek það fram að mér fannst íslenska ekki erfiðari en önnur tungumál sem ég hafði lært áður. Ég sótti íslenskutíma, lærði málfræði, horfði á sjónvarpið, las blöðin og fróðleik á mjólkurfernum en gat ekki byrjað að tala. Hvert sem ég fór gat ég líka bjargað mér á ensku þannig að mér fannst ég ekki vera einangruð.

Sumarið eftir fyrsta veturinn á Íslandi fór ég í heimsókn til heimalands míns. Þá varð mér ljóst að ég var bara komin í heimsókn, ég var ekki að koma heim. Heimili mitt var á Íslandi. Eftir sumarfrí kom ég aftur heim og skráði mig á framhaldsnámskeið í íslensku og hitti þar fólk sem hefur búið hér í t.d. 10 ár og þurfti enn þá á námskeiðum í íslensku að halda. Ég gat ekki hugsað mér að eyða hér 10 árum af lífinu og vera enn þá að sækja námskeið í tungumáli samfélagsins sem ég ætti heima í. Þetta var tímapunktur þegar mér varð ljóst að ef ég ætlaði að halda áfram að búa hér á landi þá ætlaði ég að gera það til fulls og til þess þurfti ég að læra íslensku eins og innfæddir tala.

Ég fór í íslensku fyrir erlenda stúdenta hér í háskólanum og lærði þar ekki bara málfræði og málnotkun heldur líka íslenskar bókmenntir og sögu sem auðvitað hjálpaði til að skilja betur samfélagið og Íslendingana sjálfa.  Eftir útskrift kenndi ég eitt sumar íslensku flóttamönnum frá Júgóslavíu og það var mjög gefandi reynsla að miðla því sem ég hef lært um tungumál, land og þjóð til landa minna sem hafa ekki viljugir farið frá heimilum sínum en hafa þó ákveðið að setjast hér að og byrja nýtt líf.  Eftir þessa stuttu kennslureynslu fékk ég vinnu hjá alþjóðlegu fyrirtæki, Össuri hf., og hef verið að vinna þar í næstum því 6 ár. Og þótt Össur sé alþjóðlegt fyrirtæki og opinbert tungumál í samskiptum enska er íslenska notuð í daglegum samskiptum milli starfsmanna hér á landi. Reyndar finnst manninum mínum að íslenskan mín hafi versnað síðan ég byrjaði að vinna af því að ég blandist við aðra Íslendinga og tali orðið eins og þeir. Og oftast nær hugsar fólk ekki um mig sem útlending af því að ég tala íslensku.

Það kemur mér oft á óvart þegar fólk segir við mig að ég sé orðin íslensk, svona er sterk tenging milli tungumálsins og þjóðarvitundar hjá Íslendingum. Enginn hefur sagt við mig að ég væri orðin Þjóðverji þegar ég hef talað þýsku. Þjóðverjar eru sennilega vanari að heyra útlendinga tala þýsku.  Vissulega var það fréttnæmt fyrir nokkrum árum ef einn og einn útlendingur skaut upp kollinum hér og byrjaði að tala íslensku en í dag búa hér  í kringum 13.000 útlendingar sem sest hafa hér að. Þetta er ansi stór tala miðað við mannfjölda en til gamans má geta að álíka margir Íslendingar búa á öðrum Norðurlöndum. Ætli þeir séu orðnir Skandinavar?

Spurningin er því réttlætanleg: Hvaða áhrif hafa innflytjendur á íslenskt mál?   Fyrst bið ég ykkur um að hafa í huga að innflytjendur eru ekki einsleitur hópur. Þeir koma frá mörgum löndum og frá ólíkum menningar- og tungumálasvæðum, með mjög ólíkan bakgrunn og hæfni til að aðlagast nýju samfélagi. Íslendingar, eins og Íslendingum er líkt, reyndu að skilgreina þennan hóp með því að kalla þá nýbúa . Orðið átti upphaflega að tákna útlendinga sem sest hafa að á Íslandi. Með tímanum hefur merkingin breyst þannig að í hugum margra merkir nýbúi aðeins fólk af ólíkum litarhætti eða fólk sem talar bjagaða íslensku. Mörg okkar kjósa að kalla sig síbúa .  Flestir útlendingar hér á landi koma frá Póllandi, Filippseyjum, fyrrverandi Júgóslavíu og Taílandi. Ég hef ekki orðið vör við að eitt einasta orð úr þessum tungumálum hafi ratað í íslenskuna, né að Íslendingar hafi tekið við einhverjum siðum frá þessum löndum.

Það er frekar öfugt, mér finnst stundum fyndið að tala við landa mína hér á landi og heyra þá sletta íslenskum orðum í serbneskuna. Þótt ég hafi engar kannanir eða staðreyndir til að styðjast við leyfi ég mér að fullyrða að innflytjendur hafa engin áhrif haft á íslenskuna sjálfa.  Hins vegar hefur flutningur fólks af erlendum uppruna hingað vissulega haft áhrif á íslenskt samfélag. Það er ekki eins einsleitt eins og það var áður og hér á landi býr fólk sem talar ekki íslensku. Ástæður fyrir því eru margvíslegar en menntun, uppruni manna og félagslegar aðstæður hafa sennilega mest áhrif á það hvernig mönnum gengur að læra tungumálið.   Ef innflytjendur ná ekki tökum á íslenskunni er hætta á að stéttaskipting myndist í samfélaginu og þeir verði álitnir annars flokks íbúar landsins.

Tungumálið er lykillinn að samfélaginu. Það er augljóst að til þess að aðflutt fólk á Íslandi geti tekið fullan þátt á öllum sviðum samfélagsins er nauðsynlegt að það nái góðum tökum á íslensku. Ég heyri stundum útlendinga tala sín á milli á bjagaðri ensku í staðinn fyrir að reyna að tala íslensku, sama hversu bjöguð hún gæti verið. En það er einmitt ein af hættunum sem ég get ímyndað mér að steðji að hér á landi: að enska verði samskiptamál þessa hóps. En kannski er ástæðan fyrir því að útlendingar kjósi frekar að tala ensku sú að enska er orðin eign allra , það eru fleiri í heiminum sem tala hana með einhverjum útlenskum hreim heldur en þeir sem hafa ensku sem móðurmál. Og með því að tala ensku á sinn hátt finnst mönnum þeir standa jafnfætis öðrum.   Ég bendi á að þegar enska er kennd útlendingum í enskumælandi löndum er notað orðalagið English as a second language .  Þjóðverjar kenna útlendingum Deutsch als Fremdsprache og áfram mætti telja. Til að auðvelda mönnum aðgengi að íslenskri tungu legg ég til að fundið verði viðeigandi heiti yfir íslensku sem fólk með annað móðurmál en íslensku talar, t.d. íslenska sem annað tungumál eða íslenska sem erlent tungumál .  Stefna stjórnvalda í innflytjendamálum hér á landi er því miður einskorðuð við að stýra komu útlendinga til landsins. Útlendingalögin fjalla bara um það.

Eitt af skilyrðum fyrir ótímabundnu búsetuleyfi útlendinga, sem koma utan ESB, er að viðkomandi hafi sótt 150 kennslustundir í íslensku. Lögin gera engar kröfur hins vegar til sjálfrar kennslunnar né aðgengis að henni. Íslenskunámskeið eru af mjög skornum skammti og misgóð  sérstaklega úti á landsbyggðinni. Það þarf að auka skilning á mikilvægi sérhæfðar kennaramenntunar á þessu sviði. Það þarf líka að móta námskeið miðað við samsetningu hópanna, þar sem t.d. asískir nemendur hafa óneitanlega öðruvísi þarfir en slavneskir.  Það er allra hagur að stjórnvöld móti ákveðna stefnu um íslenskukennslu handa innflytjendum en benda má á að mikill skortur er á námskrá fyrir íslensku sem erlent tungumál.  Mér finnst það aðdáunarvert hversu annt Íslendingum er um tungumálið sitt. En tungumál er ekki fyrirbæri sem mun klárast ef of margir nota það. Íslendingar munu ekki týna sínum sérkennum ef fleiri en þeir tala íslensku. Það er miklu hollara að horfa á málið þannig að með íslenskutalandi útlendingum hafa Íslendingar öðlast bandamenn sem munu hjálpa þeim að varðveita hana.

You may also like