Kynbundið ofbeldi

Erlendar konur í ofbeldisfullum samböndum- 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi;3. desember 2004 |

Erlendar konur í ofbeldisfullum samböndum

gender

Tatjana Latinovic fjallar um ofbeldi gegn konum af erlendum uppruna: “Það er nauðsynlegt að rjúfa einangrun erlendra kvenna sem búa hér á landi og kynna fyrir þeim réttindi þeirra og úrræðin sem eru í boði.”

Að byrja í sambúð er skemmtileg reynsla. En hverri breytingu á lífsstíl fylgir ákveðin streita og álag. Þrátt fyrir ást og fögur fyrirheit er ekki óeðlilegt að erfiðleikar skapist í byrjun sambúðar sem blessunarlega leysast í flest öllum samböndum. Í gegnum þetta verður fólk að fara hvort sem það giftist einhverjum úr sömu götu eða útlendingi. En flest hjónabönd eru byggð á gagnkvæmri virðingu og ást. Þannig er þetta líka með hjónabönd íslenskra karla og erlendra kvenna. Hins vegar er nauðsynlegt að viðurkenna þá staðreynd að allt of margar erlendar konur sem koma hingað til lands lenda í klóm ofbeldismanna.

Erlendar konur eru yfirleitt háðari mökum sínum en hérlendar konur. Það er meiri hætta á að þær einangrist á heimilum, sökum þess að þær þekkja ekki rétt sinn, tala ekki íslensku og finna fyrir vanmætti gagnvart samfélaginu. Þetta veldur meira valdamisvægi sem ofbeldismenn eiga auðvelt með að beita fyrir sig. Í mörgum af þessum tilvikum sem við höfum heyrt um hafa karlmenn unnið markvisst í því að halda konum óupplýstum til að rugla þær þangað til þær missa raunveruleikaskyn. Konurnar eru háðar eiginmönnum sínum fjárhagslega en einnig lagalega, þar sem dvalarleyfi þeirra er í mörgum tilvikum bundið maka á fyrstu árum sambúðar.

Samkvæmt upplýsingum Kvennaathvarfsins, eru erlendar konur á bilinu 22-38% allra þeirra kvenna sem dveljast þar, og flestar þeirra eru að flýja íslenskan eiginmann sinn. Oftast koma þær í athvarfið með hjálp vinnufélaga sinna sem finna fyrir því að ekki sé allt með felldu í einkalífinu þeirra og bjóða aðstoð sína. Það er ekki hægt að segja með vissu hversu margar erlendar konur hér á landi hafa alls ekki samband við umheiminn og leita sér því ekki aðstoðar. Þessi faldi hópur er í mikilli hættu.

Það er nauðsynlegt að rjúfa einangrun erlendra kvenna sem búa hér á landi og kynna fyrir þeim réttindi þeirra og úrræðin sem eru í boði. Það þarf að finna leið til að upplýsa þær um hvað andlegt og líkamlegt ofbeldi felur í sér og að þær ættu alls ekki að sæta sig við það.

Tatjana Latinovic

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/832574/

 

 

 

You may also like