Kynbundið ofbeldi

Glæpir gegn konum eru ekki menningararfleifð -16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi;28. nóvember 2007

Glæpir gegn konum eru ekki menningararfleifð

– grein birtist í Morgunblaðinu, 28. nóvember 2007

Fadime Šahindal var ung sænsk-kúrdísk kona, nemandi við háskóla í Svíþjóð. Þann 21. janúar 2002 féll Fadime fyrir hendi föður síns. Faðirinn játaði glæpinn og útskýrði að dóttir sín hafi smánað sæmd fjölskyldu sinnar. Fadime smánaði föður sinn og bróður með því að velja kærastann sinn sjálf. Hún smánaði alla fjölskylduna vegna þess að hún kærði til lögreglunnar morðhótanir sem hún fékk frá föður sínum og bróður fjórum árum fyrr. Þrátt fyrir það að Fadime teldi sig hafa farið réttu leiðina og kært ofbeldi sem hún varð fyrir, tókst réttarkerfinu ekki að koma henni til hjálpar.

Fadime er þekktasta fórnarlamb sæmdarglæpa í Svíþjóð en ekki það fyrsta og því miður ekki síðasta. Hennar arfleifð er, að með hugrekki og vilja til að tjá sig um dapurlegan veruleika sem hún og margar kynsystur hennar búa við, hafi hún opnað augu Svía fyrir vandamálinu.
Margt hefur verið gert í Svíþjóð til að takast á við þennan smánarblett á samfélaginu. Fréttir um sæmdarglæpi í fjarlægum löndum berast til okkar á Vesturlöndum öðru hvoru og koma kannski ekki mörgum á óvart. Hinsvegar að sæmdarglæpir tíðkist og að það séu konur í hjarta Evrópu sem þurfa að óttast um líf sitt vegna þeirra er evrópskum samfélögum til skammar.
Það heyrast raddir sem segja að það sé bein tenging milli aukins fjölda tiltekinna innflytjenda og vaxandi hættu á sæmdarglæpum og þ.a.l. lausnin við þeim sé að taka ekki á móti innflytjendum eða fækka þeim. Þessi nálgun er strútsháttur, vandamálið verður ekki leyst ef samfélagið tekst ekki á við rót þess. Konur hvaðanæva að úr heiminum eiga rétt á að líf þeirra og mannréttindi séu virt. Að tengja ofbeldi og kúgun við menningu einhverrar þjóðar er glæpur.

Eftir fráfall Fadimu hefur mikil vakning orðið á Norðurlöndum og víða um vandamál sem sæmdarglæpir eru. Í Svíþjóð fá þverfagleg teymi með fulltrúum frá lögreglu, félagsþjónustu, starfsfólki í menntastofnunum og heilbrigðiskerfinu viðeigandi þjálfun til að takast á við vandamálið og aðstoða konur sem verða fyrir ofbeldi. Samtök innflytjendakvenna eru virkir þátttakendur í þessu átaki. Með þeirra reynslu og þekkingu ná þær til annarra innflytjendakvenna og veita þeim styrk og aðstoð sem þær þurfa á að halda.
Fatma Mahmoud er félagi í samtökum kvenna af erlendum uppruna (IKF) í Karlstad í Svíþjóð. Hún hefur um árabil unnið fyrir ungar innflytjendakonur sem eiga á hættu að verða fórnarlömb sæmdarglæpa. Samtökin hennar vinna með lögreglu, stjórnsýslu og félagsmálayfirvöldum í viðleitni að sporna við glæpum og aðstoða ungar stúlkur við að komast út úr þessum vítahring.

Fatma Mahmoud verður gestur Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi í dag. Hún mun halda fyrirlestur um sæmdarglæpi í Svíþjóð og lýsa því hvað er gert til að berjast gegn þeim á hádegisfundinum í dag, miðvikudag 28. nóvember kl. 12:00 í sal Norræna hússins, Sturlugötu 5.

Tatjana Latinovic

http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1177642/

 

 

You may also like