Útgefið efni Ræður

AnhDao á stofnufund 24.October 2003

Frú Vigdís Finnbogadóttir,

góðir félagar/fundarmenn

Ég vil fyrir hönd nýrrar stjórnar þakka ykkur fyrir þann heiður sem þið hafið sýnt okkur með því að treysta okkur fyrir að stýra nýjum samtökum. Nafn samtakanna er Samtök kvenna af erlendum uppruna. Nafnið vísar til þess að við eigum allar, sem eigum rætur í ólíkum heimhlutum, hlut í félaginu. Samtökunum er ætlað að flytja rödd okkar, túlka hagsmuni okkar og áhugamál, verja jafnrétti okkur sem kvenna og sem innflytjenda í íslensku samfélagi.

Nefndin sem undirbúið hefur þessa félagsstofnun hefur reynt að ná sambandi við eins margar konur af erlendum uppruna eins og okkur hefur verið unnt til að bjóða þeim til stofnfundarins. Við vitum samt sem áður að margar hafa enn ekki frétt af stofnun samtakanna. Stjórnarmaður okkar, Annalou Perez, sem býr á Dalvík, mun njóta aðstoðar nágranna síns, Roxanne Morales á Akureyri, til að ná tengslum við konur í Eyjafirði. Dragana Zastavnikovic, fulltrúi okkar á Vestfjörðum, mun leiða þetta starf fyrir vestan, og það sama mun Amal Tamini gera hér á höfuðborgar­svæðinu. Markmið okkar á næstunni er að virkja konur af erlendum uppruna í öðrum landshlutum um leið og við höfum mannafla og fjárhagslegan styrk til þess.

Okkar bíða mörg verkefni. Margar okkar starfa utan sérfræðisviða okkar. Margar erum við að berjast við að læra íslensku, og vera í fullri vinnu á sama tíma. Margar erum við að styðja við fjölskyldur okkar, hjálpa þeim að fóta sig á ýmsum sviðum nýs lífs, laga menningarlegan, menntunarlegan, starfslegan og tilfinningalegan bakgrunn okkar—allan pakkann—að nýjum aðstæðum. Margar okkar eru einangraðar. Nýkjörin stjórn verður ábyrg fyrir að hlusta á félagskonur, tala máli þeirra og eiga fyrir þeirra hönd samvinnu við önnur samtök, stofnanir og opinbera aðila, við að vinna áhugamálum þeirra og hagsmunum framgang.

Ég vil endurtaka þakkir fyrir traust ykkar. Við óskum félagskonum þessara nýju samtaka alls hins besta í góðum félagsskap, samhug og samstöðu.

 

Takk fyrir.

You may also like